Ein af ástæðunum fyrir þessu bloggi er til þess að geta skrifað um ferðalög sem ég hef farið í. Bæði til þess að skifa niður góðar minningar og til þess að segja ykkur frá og vonandi gefa ykkur einhver góð ráð í leiðinni. Mér finnst mjög gaman að rifja upp góðar minningar á þessum skrítnu tímum sem við lifum núna og í staðinn fyrir að ferðast að hugsa þá um öll skemmtilegu ferðalögin sem ég hef farið í. Það er svo mikilvægt að rifja upp góðar minningar og tala um þær.
Ferðalagið okkar Sindra til Grikklands er eitt uppáhalds ferðalagið mitt. Við gáfum hvort öðru þessa ferð í afmælisgjöf. Við elskum að gefa upplifanir í gjafir og er það góð leið ef þú átt einhvern góðan að, að gefa upplifanir í gjöf það er bara svo mikið skemmtilegra!
Við fórum í ágúst 2019 en við byrjuðum á að fljúga til Aþenu í Grikklandi og þaðan beint til Krítar þar sem við ákváðum að lengja ferðalagið aðeins og vera 6 daga á Krít áður en við færum til Santorini sem var tilgangur ferðarinnar.
Á Krít vorum við í litlum strandarbæ sem heitir Almyrida og gistum á hóteli sem heitir Aloe Boutique & Suites, það var afskaplega notalegt að vera þar. Á Krít vorum við aðallega að njóta sólarinnar þar sem aðstaðan var frábær og maturinn mjög góður. Við hótelið var lítill veitingastaður sem seldi pítur en ef þú ferð til Grikklands mæli ég klárlega með að þú smakkir gríska pítu, þær eru sjúklega góðar og ódýrar í þokkabót.
Hótelið sem við vorum á
Nokkrir hlutir til að gera á Krít
-Elafonissi beach
-Skoða Chania
-Balos beach
-Smakkaðu grískan mat, hann er sjúklega góður
-Skoða Samaria Gorge
-Njóta
Það sem stóð helst upp úr á Krít var þegar að við Sindri ákváðum að leigja okkur bíl til þess að fara að versla í Heraklion sem er bær 2 klukkustundum frá Almyrida. Það var frekar mikið vesen að fá bíl þar sem við vorum ekki orðin 25 ára, gott að hafa það í huga. Það var starfsmaður á hótelinu sem náði svo að redda okkur bíl sem við vorum mjög ánægð með. Við lögðum af stað snemma sunnudagsmorgun til að ná að nýta allan daginn. Það var öðruvísi að keyra í Grikklandi en Sindra fannst það mjög gaman. Ferðin tók sirka 1 og hálfan tíma en þegar við komum til Heraklion þá föttuðum við að í Grikklandi eru búðir lokaðar á sunnudögum. Alveg frábært! Ég sem var svo spennt að versla...
En við ákváðum að gera gott úr þessu og breyta dagsferðinni í ferð á Balos Beach.
Balos Beach er mjög falleg strönd sem er vinsæll ferðamannastaður á Krít. Við keyrðum af stað og þegar Google Maps segir okkur að við séum næstum komin blasir við okkur einhver hræðilegasti malarvegur sem ég hef séð á ævi minni. Þetta var malavegur í fjallshlíð og ef maður leit niður var sjór. Þetta var skelfilegt, við vorum líka á litlum og krúttlegum Lancia bíl. Við enduðum loksins nálægt bílaplani sem var stútfullt, þannig að við þurftum að snúa við og leggja í vegkantinum í bílaröð meðfram einbreiða veginum.
Við föttuðum síðan að við þyrftum að labba í yfir klukkutíma til þess að komast að ströndinni en það var allt þess virði. Það var reyndar mikill vindur þannig við enduðum á að stoppa stutt.
Þegar við komum að bílnum í bakaleiðinni og keyrðum af stað fatta ég að ég hafði misst símann minn.. Við snérum við og ég fann sem betur fer símann á miðjum veginum þannig við gátum keyrt af stað á þessum einbreiða malarvegi en þá skyndilega heyrðist mjög hár hvellur og viti menn dekkið var sprungið. Við fórum út, fundum tjakk og lítið varadekk og skiptum sprungna dekkinu út. Við keyrðum mjög varlega af þessum vegi á varadekkinu og Sindri hringir í bílaleiguna og segir hvað hefði gerst. Þeir voru allt annað en ánægðir, húðskömmuðu okkur og sögðu okkur að þessi bíll mætti ekki fara utanvegar. Við keyrðum áfram í átt að hótelinu en villtumst auðvitað því ég er ekki sú sterkasta á Google Maps. Við enduðum í mjög skuggalegu hverfi á eldgömlum og holóttum vegi þar sem grasið hafði vaxið yfir veginn. Skyndilega hvarf vegurinn og við vorum komin út á eitthvað tún, þar sem stráin náðu vel upp yfir hné. Við náðum loks að koma okkur á malbikaðan veg og ævintýrið hélt áfram. Þegar að við mættum fyrir framan hótelið beið okkar maðurinn sem leigði okkur bílinn. Hann var allt annað en sáttur og við þurftum að borga yfir 100 evrur fyrir ''skemmdina''. Sindri reyndi að tala þá til þar sem við borguðum fyrir allar tryggingar á bílnum og áttum að skila bílnum eftir sólarhring en það gekk ekki að reyna að tala við þá. Ég var orðin frekar hrædd og fór inn á hótelherbergi. Þegar við vorum búin að vera þar í 5 mínútur bankar einhver á hurðina okkar og þá hefðum við gleymt að fylla bílinn af bensíni áður en við skiluðum honum.
Þetta var alveg mögnuð og ógleymanleg upplifun.
Hérna er video sem sýnir ykkur hvernig þessi hræðilegi vegur var.. Hann var líka hálftíma keyrsla!
Þetta ævintýri gerði ferðina til Krítar ógleymanlega. Okkur finnst ekkert skemmtilegra en að lenda í svona ævintýrum saman og vona ég að þau verði endalaust fleiri.
Takk fyrir að lesa <3
.
Comments